Óeining um nýjan landsliðsþjálfara Íslands

Snorri Steinn Guðjónsson er efstur á óskalista margra innan HSÍ.
Snorri Steinn Guðjónsson er efstur á óskalista margra innan HSÍ. mbl.is/Kristinn Magnússon

Óeining ríkir innan Handknattleikssambands Íslands um það hver eigi að taka við þjálfun íslenska karlalandsliðsins.

Þetta herma heimildir mbl.is og Morgunblaðsins.

Guðmundi Þórði Guðmundssyni var óvænt sagt upp störfum sem þjálfara liðsins hinn 21. febrúar og er liðið því á höttunum eftir nýjum þjálfara.

Fjöldi þjálfara hefur verið orðaðir við starfið að undanförnu en þar ber hæst að nefna Dag Sigurðsson, Svíann Michael Apelgren og Snorra Stein Guðjónsson.

Michael Apelgren tekur ekki við íslenska landsliðinu.
Michael Apelgren tekur ekki við íslenska landsliðinu. Ljósmynd/Sävehof

Snorri Steinn efstur á lista

Samkvæmt heimildum hefur HSÍ rætt óformlega við alla þrjá þjálfarana en Michael Apelgren verður ekki næsti landsliðsþjálfari Íslands þar sem hann er ekki lengur með uppsegjanlegan samning í Svíþjóð.

Snorri Steinn Guðjónsson er efstur á óskalista margra innan Handknattleikssambandsins en aðrir vilja fá erlendan þjálfara.

Af þeim erlendu kostum sem nú eru í boði er Christian Berge, fyrrverandi landsliðsþjálfari Noregs og núverandi þjálfari Íslendingaliðs Kolstad, efstur á blaði.

Þá horfir Handknattleikssambandið einnig til danska þjálfarans Keld Wilhelmsen, núverandi aðstoðarþjálfara GOG. Til greina kemur að þeir tveir myndi einhvers konar þjálfarateymi, án þess þó að hafa unnið saman áður.

Christian Berge, fyrrverandi landsliðsþjálfari Noregs og núverandi þjálfari Kolstad.
Christian Berge, fyrrverandi landsliðsþjálfari Noregs og núverandi þjálfari Kolstad. AFP

Engar formlegar viðræður

Engar formlegar viðræður hafa hins vegar átt sér stað við neinn þjálfara, eftir að Guðmundur var rekinn, og stafar það einna helst af því að illa gengur að sammælast um nýjan þjálfara.

Eins og áður hefur komið munu þeir Ágúst Jóhannsson og Gunnar Magnússon stýra íslenska liðinu í lokaleikjunum gegn Eistlandi og Ísrael í undankeppni EM 2024 sem fara fram í lok apríl.

Næstu verkefni íslenska liðsins verða í nóvember á þessu ári en Ísland hefur þegar tryggt sér keppnisrétt á Evrópumótinu 2024 sem fram fer í Þýskalandi í janúar.

Dagur Sigurðsson hefur einnig verið orðaður við landsliðsþjálfarastarfið en hann …
Dagur Sigurðsson hefur einnig verið orðaður við landsliðsþjálfarastarfið en hann stýrir landsliði Japans í dag. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert