Grótta nældi í oddaleik – Selfoss í úrslit

Katla María Magnúsdóttir átti stórleik fyrir Selfoss.
Katla María Magnúsdóttir átti stórleik fyrir Selfoss. Ljósmynd/Sigfús Gunnar

Grótta tryggði sér í kvöld oddaleik í undanúrslitaeinvígi sínu við ÍR í umspili 1. deildar kvenna í handbolta með 31:28-heimasigri. Er staðan í einvíginu nú 1:1 og ráðast úrslitin í oddaleik í Skógarseli á laugardag.

Ída Margrét Stefánsdóttir skoraði sjö mörk fyrir Gróttu og Þóra María Sigurjónsdóttir sex. Karen Tinna Demian fór á kostum fyrir ÍR og skoraði 12 mörk, en þau dugðu ekki til.

Rétt eins og í fyrsta leik var Selfoss með yfirburði gegn FH og tryggði liðið sér sæti í úrslitum með 28:22-útisigri í kvöld. Selfoss er í keppni um að halda sæti sínu í úrvalsdeildinni, en hin þrjú liðin um að fara upp úr 1. deild.

Landsliðskonan Katla María Magnúsdóttir skoraði 11 mörk fyrir Selfoss. Ivana Meincke skoraði fimm fyrir FH, sem er úr leik.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert