Grótta tryggði sér í kvöld oddaleik í undanúrslitaeinvígi sínu við ÍR í umspili 1. deildar kvenna í handbolta með 31:28-heimasigri. Er staðan í einvíginu nú 1:1 og ráðast úrslitin í oddaleik í Skógarseli á laugardag.
Ída Margrét Stefánsdóttir skoraði sjö mörk fyrir Gróttu og Þóra María Sigurjónsdóttir sex. Karen Tinna Demian fór á kostum fyrir ÍR og skoraði 12 mörk, en þau dugðu ekki til.
Rétt eins og í fyrsta leik var Selfoss með yfirburði gegn FH og tryggði liðið sér sæti í úrslitum með 28:22-útisigri í kvöld. Selfoss er í keppni um að halda sæti sínu í úrvalsdeildinni, en hin þrjú liðin um að fara upp úr 1. deild.
Landsliðskonan Katla María Magnúsdóttir skoraði 11 mörk fyrir Selfoss. Ivana Meincke skoraði fimm fyrir FH, sem er úr leik.