Handknattleiksmaðurinn Gunnar Steinn Jónsson, leikmaður Stjörnunnar, íhugar nú næsta skref sitt á ferlinum.
Samningur hins 35 ára gamla Gunnars Steins við Stjörnuna rennur út í sumar og er tímabilinu lokið hjá liðinu eftir 0:2-tap fyrir ÍBV í átta liða úrslitum úrslitakeppninnar um Íslandsmeistaratitilinn.
Í samtali við Vísi eftir tap Stjörnunnar fyrir ÍBV í öðrum leik liðanna í gærkvöldi kvaðst hann ekki vita hvað framtíðin bæri í skauti sér.
„Það er of snemmt að segja hvað verður. Ég er ekki með samning og ætla bara aðeins að íhuga hvað ég geri á næsta ári,“ sagði Gunnar Steinn.
Hann lék um langt skeið með íslenska landsliðinu og var atvinnumaður erlendis um 12 ára skeið, þar sem Gunnar Steinn lék í Þýskalandi, Frakklandi, Danmörku og Svíþjóð.