Mosfellingar í undanúrslit eftir sigur á Fram

Framarinn Ívar Logi Styrmisson skýtur að marki Aftureldingar.
Framarinn Ívar Logi Styrmisson skýtur að marki Aftureldingar. mbl.is/Óttar Geirsson

Það var mikið í húfi þegar Afturelding og Fram mættust í íþróttamiðstöðinni að Varmá í öðrum leik liðanna í 8-liða úrslitum Íslandsmótsins í handbolta í kvöld. Fyrir leik var Afturelding, 1:0 yfir í einvíginu eftir að hafa unnið fyrsta leikinn í Úlfarsárdal. Lokatölur í kvöld urðu, 24:23, Aftureldingu í vil og eru þeir komnir í undanúrslit Íslandsmótsins.

Mosfellingar voru með frumkvæðið frá byrjun leiks í kvöld og það var augljóst frá fyrstu mínútu að þeir ætluðu alls ekki að missa einvígið í oddaleik. Þorsteinn Leó Gunnarsson skoraði fyrsta mark leiksins og setti þar með tóninn. Afturelding komust mest fimm mörkum yfir í fyrri hálfleik, 7:2, var þar helst að þakka áðurnefndum Þorsteini og Brynjari Vigni Sigurjónssyni, markverði Mosfellinga sem varði 8 skot í fyrri hálfleik.

Liðsmenn Fram voru lengi í gang en náðu að spila sig inn í leikinn þegar líða tók á hálfleikinn. Stefán Darri Þórsson stjórnaði sóknarleik þeirra vel en á meðan Brynjar Vignir varði vel í marki Aftureldingar, þá voru kollegar hans með samanlögð tvö skot varin þegar flautað var til hálfleiks. Staðan í hálfleik, 13:9, heimamönnum í vil.

Síðari hálfleikur spilaðist í byrjun svipað og sá fyrri og heimamenn komust í sjö marka forystu, 18:11, þegar Þorsteinn Leó skoraði sitt fimmta mark. Þá breytti Einar Jónsson, þjálfari Fram, vörn gestanna og spilaði 5+1 vörn og reyndi hvað hann gat að loka á Þorstein Leó. Við þetta fipaðist sóknarleikur heimamanna og gestirnir gengu á lagið.

Framarar sýndu mikinn karakter og minnkuðu muninn í tvö mörk þegar Reynir Þór Stefánsson skoraði úr víti. Fjórar mínútur eftir af leiknum og spennan í hámarki.

Lokakafli leiksins var einstaklega spennandi. Árni Bragi Eyjólfsson sem hafði átt frábæran leik, missti boltann fyrir heimamenn þegar skammt var eftir. Ólafur Brim Stefánsson, leikmaður Fram, keyrði þá í sókn og minnkaði muninn í eitt mark og ein mínúta eftir. Mosfellingar fóru í sókn en nýttu hana ekki þannig að Framarar tóku leikhlé og lögðu upp lokasóknina. Þeir reyndu að koma boltanum inn á línuna en Árni Bragi spilaði flotta vörn og vann boltann og þar með leikinn fyrir heimamenn.

Hjá heimamönnum var Þorsteinn Leó Gunnarsson markahæstur með 8 mörk, Árni Bragi Eyjólfsson fylgdi honum fast á eftir með 7 mörk. Hjá gestunum voru Marko Coric og Stefán Darri Þórsson markahæstir með 4 mörk hvor.

Afturelding 24:23 Fram opna loka
60. mín. Árni Bragi Eyjólfsson (Afturelding) skýtur framhjá Árni Bragi fær færið með mann í sér, heimamenn vilja brot en ekkert dæmt og Framarar fá sókn til að jafna leikinn.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert