Söguleg úrslit á Ásvöllum

Guðmundur Bragi Ástþórsson skýtur að marki Vals. Alexander Júlíusson og …
Guðmundur Bragi Ástþórsson skýtur að marki Vals. Alexander Júlíusson og Aron Dagur Pálsson eru til varnar. mbl.is/Árni Sæberg

Áhorfendur á Ásvöllum í Hafnarfirði í kvöld urðu vitni að sögulegum úrslitum þegar deildarmeistarar voru í fyrsta skipti slegnir út í 8-liða úrslitum frá því úrslitakeppni var tekin upp á Íslandsmóti karla í handknattleik.

Valur varð deildarmeistari og er auk þess Íslandsmeistari síðustu tveggja ára. Haukar höfnuðu í 8. sæti í deildinni en slógu Val út 2:0. Haukar unnu fyrri leik liðanna á Hlíðarenda 24:22 og rótburstuðu laskaða Valsmenn 33:14 í kvöld.

Lygilegar tölur en sannar engu að síður. Valur skoraði aðeins 4 mörk í fyrri hálfleik en að honum loknum var staðan 13:4. Haukar áttu ekki í vandræðum með fylgja því eftir í síðari hálfleik og unnu afar öruggan sigur á andlausum Valsmönnum. Deildarmeistararnir töpuðu þar með áttunda leiknum í röð í öllum keppnum. Þrír þeirra voru gegn Haukum. Einn í deildakeppninni og þessir tveir í úrslitakeppninni. 

Áttunda tapið í röð

Eftir viðburðaríkt tímabil þar sem Valsmenn gerðu góða hluti í Evrópudeildinni, og léku um tíma geysilega vel, gaf liðið svakalega eftir á lokakafla tímabilsins. Liðið tapaði síðustu átta leikjunum og fleiri leikir töpuðust stórt heldur en í kvöld eins og gegn ÍBV í síðustu umferð deildakeppninnar. 

Á sjúkralistanum hjá Val eru þekktir leikmenn eins og Magnús Óli Magnússon, Róbert Aron Hostert og Benedikt Gunnar Óskarsson sem þar að auki geta allir spilað vinstra megin fyrir utan. Augljóst er að það veikir liðið mjög mikið í sókninni en spurning hvort það eigi að hafa úrslitaáhrif fyrir vörnina hjá liðinu. 

Þótt Valsliðið sé laskað þá er ekki ástæða til að pakka frammistöðunni í kvöld inn í huggulegar umbúðir. Engin skömm felst í því að tapa gegn sterku liði eins og Haukum en það er ekki sama hvernig menn tapa. Tala nú ekki um þegar um eitt besta lið landsins er að ræða. Valsmenn voru rosalega daufir í kvöld og ekkert í þeirra látbragði eða líkamstjáningu benti til þess að leikurinn í kvöld væri mikilvægur. Hvað þá að tap myndi þýða ótímabært sumarfrí. Stundum ná menn sér ekki almennilega á strik eins og gengur en andleysið var þannig að þjálfarinn og reyndustu leikmenn liðsins þurfa að velta því fyrir sér. Eins leiðinlegt og það verður fyrir þá að skoða þennan leik aftur. 

Tölurnar tala sínu máli. Valur skoraði 4 mörk í fyrri hálfleik með Stiven Valencia, Aron Dag Pálsson, Arnór Snæ Óskarsson, Agnar Smára Jónsson, Finn Inga Stefánsson og Þorgils Svölu Baldursson inn á. Hér eru ekki neinir byrjendur á ferðinni. Fyrsta markið kom á 15. mínútu leiksins þótt ótrúlega kunni að hljóma og 10. mark Vals í leiknum kom á 51. mínútu. 

Öflug vörn skilar bikurum

Varðandi markaskor Vals þá komum við eðli málsins samkvæmt að vörninni hjá Haukum. Hún var virkilega góð og Haukar sýndu að þeir geta spilað hörkuvörn með Þráinn Orra Jónsson og Adam Hauk Baumruk fyrir miðju. Öflug vörn skilar liðum bikurum og hver veit nema Haukar berjist um Íslandsmeistaratitilinn. Of snemmt er að segja til um það en miðað við hversu öfluga vörn liðið getur spilað þá eiga þeir möguleika. Aron Rafn Eðvarðsson var mjög góður í markinu og ekki auðveldaði það Valsmönnum verkefnið. 

Haukar eru með marga reynda leikmenn og nú verður áhugavert að sjá hvernig þeir spila úr þessari stöðu. Þeir flugu undir radarinn í aðdraganda úrslitakeppninnar en unnu deildarmeistarana 2:0 og eru fyrsta liðið til úr 8. sæti til að slá út liðið í 1. sæti á Íslandsmóti karla. Til samanburðar hefur það aðeins einu sinni gert í úrslitakeppninni í körfunni og þarf að fara liðlega þrjátíu ár aftur í tímann. Haukar eru samt ekkert venjuleg lið í 8. sæti með leikmenn sem hafa unnið bikara, verið atvinnumenn og spilað með landsliðinu. 

Slæmu tíðindin fyrir Haukana eru kannski þau að framundan er landsleikjahlé. Með þennan meðbyr hefðu þeir verið meira en til í að takast á við næsta verkefni sem allra fyrst. Nú er uppi á þeim typpið eins og sagt er að gullaldar íslensku. 

Haukar 33:14 Valur opna loka
60. mín. Guðmundur Bragi Ástþórsson (Haukar) skoraði mark Skot fyrir utan.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert