Gunnar Magnússon, þjálfari Aftureldingar, sagðist í samtali við mbl.is vera afskaplega ánægður með sigur sinna manna á Fram í öðrum leik liðanna í 8-liða úrslitum Íslandsmótsins í handbolta en leikið var í Mosfellsbæ í kvöld. Leiknum lauk með sigri heimamanna, 24:23. Með sigrinum er Afturelding búin að tryggja sér sæti í undanúrslitum Íslandsmótsins.
„Það gat nú ekki verið að leikur þessara liða hefði orðið eitthvað þægilegur, ég man ekki eftir því að það hafi gerst þegar þessi tvö lið mætast. Ég er ótrúlega ánægður að hafa unnið þennan leik, við vorum frábærir í 50 mínútur en urðum svo bensínlausir og þetta var tæpt í lokin.“
Framarar breyttu vörn sinni eftir 40 mínútna leik og heimamenn áttu í erfiðleikum með að leysa það. Aðspurður hvort varnarleikur gestanna hafi komið sér á óvart, svaraði Gunnar:
„Nei, við vorum búnir að æfa það vel. Fyrstu sóknirnar eftir að þeir breyttu voru góðar en svo kom höktið og við klúðrum dauðafærum. Það kom smá hræðsla í okkur sóknarlega og að sama skapi var orkan bara búin, Birkir og Þorsteinn spila nánast allan leikinn og okkur vantaði bara kraft.“
Blær Hinriksson gat ekki spilað í kvöld vegna meiðsla þannig að sóknarlína Aftureldingar í dag var skipuð þeim Þorsteini Leó Gunnarssyni, Árna Braga Eyjólfssyni og Birki Benediktssyni. Gunnar var ánægður með þá þrjá í kvöld.
„Þeir voru frábærir. Ég sagði þegar við misstum Blæ út að við eigum fullt af frábærum mönnum eftir þannig að við höfðum fulla trú á þessu. Ég fann það á milli leikjanna að strákarnir höfðu virkilega trú á því að við myndum klára þetta í kvöld. Við finnum að það er mikið sjálfstraust og stemning í klúbbnum og við ætlum að nýta okkur það og fara alla leið.“
Stuðningsmenn Aftureldingar voru stórkostlegir á pöllunum í kvöld, sungu og trölluðu allan leikinn og stemningin var gífurleg. Gunnar segir að stuðningurinn sé gríðarlega mikilvægur.
„Þetta er ómetanlegt og stuðningsmennirnir okkar vita það að við gerum ekkert einir, við þurfum hjálp frá þeim áfram. Nú erum við komnir með heimaleikjarétt í næsta einvígi á móti Haukum og okkur hlakkar mikið til.“
Það kemur landsleikjahlé núna og Íslandsmótið fer í rúmlega tveggja vikna frí.
„Það kemur gott frí núna fyrir strákana og við munum mæta fullir sjálfstraust og úthvíldir í næsta leik.“
Sjálfur er Gunnar á leið í landsliðsverkefni, enda er hann annar landsliðsþjálfara Íslands.
„Ég þekki það ekki að taka pásu, það er ágætt að halda mér í leikformi. Ég mæti í leikformi í næsta leik og strákarnir úthvíldir. Það passar bara mjög vel saman.“