Besti leikmaður sem ég hef spilað með

Berglind Benediktsdóttir sækir að marki Framara með Steinunni Björnsdóttur og …
Berglind Benediktsdóttir sækir að marki Framara með Steinunni Björnsdóttur og Þóreyju Rósu Stefánsdóttur í sér. Arnþór Birkisson

„Þetta er alveg geggjað,“ sagði Margrét Einarsdóttir, markvörður Hauka, í samtali við mbl.is eftir frábæran sigur Hauka á Íslandsmeisturum Fram, 31:30, eftir framlengdan leik í úrslitakeppni Íslandsmótsins í handbolta á Ásvöllum í dag. 

Með sigrinum eru Haukakonur komnar í undanúrslitin þar sem þær mæta ÍBV. 

„Tilfinningin er alveg frábær. Sérstaklega í ljósi þess að í fyrra var hún alveg ömurleg en er núna geggjuð, það er bara partur af íþróttinni.“

Margrét Einarsdóttir.
Margrét Einarsdóttir. Ljósmynd/Þórir Tryggvason

Haukaliðið hafnaði í fimmta sæti en Fram í því fjórða. Þrátt fyrir að aðeins eitt sæti skildi liðin að þá voru Framkonur með 13 stigum meira, 27 gegn 14. Einnig hafði Framliðið verið í mun betra formi komandi inn í leikinn, en Haukar svöruðu öllum efasemdum og kláruðu einvígið í tveimur leikjum. 

Hvernig þær fóru að því að vinna segir Margrét það hafa verið áherslubreytingar, að þær hafi farið að spila upp á sína styrkleika.  

„Við erum búnar að breyta eiginlega alveg um taktík. Við erum að spila allt öðruvísi vörn núna en til dæmis undir lok deildarkeppninnar. Ég held við séum núna að spila upp á styrkleikana okkar. Erum loksins að sýna hvað við alvörunni getum í handbolta. 

Það bjóst engin við því að við myndum vinna Fram í tveimur leikjum og við vissum að þær myndu mæta af hörku í þessa leiki. En við vorum tilbúnar að sýna hvað í okkur býr, sérstaklega eftir þetta tímabil. Þetta var ekkert sérstaklega gott tímabil í deildinni miðað við hvað við vitum að við getum.“

Skuldaði liðinu

Margrét steig upp í framlengingunni og varði þrjá bolta, henni fannst hún hafa skuldað liðinu það.  

„Já það var gott. Ég skuldaði það eiginlega, svona miðað við leikinn.“

Eins og áður kom fram mæta Haukakonur deildar- og bikarmeisturum ÍBV í undanúrslitum. Margrét segir liðið þurfa að vera vel undirbúið fyrir þann slag.  

„Það verður svo sannarlega verðugt verkefni. Þær eru náttúrulega búnar að vera langbesta liðið, þannig við þurfum að undirbúa okkur vel fyrir þá leiki.“

Að lokum var Margrét spurð hversu mikilvægt væri að hafa leikmann eins og Elínu Klöru Þorkelsdóttur sem fór á kostum í báðum leikjunum og skoraði sigurmark dagsins á lokasekúndunni. 

„Ójá, Elín er bara besti leikmaður sem ég hef spilað með nokkurn tímann, þannig já það er svo sannarlega mikilvægt.“ 

Elín Klara Þorkelsdóttir.
Elín Klara Þorkelsdóttir. Arnþór Birkisson
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert