Boris Bjarni Akbashev er látinn

Þorbjörn Jensson þjálfari og Boris Bjarni Akbashev aðstoðarþjálfari ræða málin …
Þorbjörn Jensson þjálfari og Boris Bjarni Akbashev aðstoðarþjálfari ræða málin á landsliðsæfingu Íslands um síðustu aldamót. mbl.is/Kristinn Ingvarsson

Handknattleiksþjálfarinn Bjarni Akbashev, eða Boris eins og hann hét upphaflega og var ávallt kallaður, er látinn, 89 ára að aldri.

Boris kom fyrst til Íslands árið 1980 til að þjálfa hjá Val og var þá í tvö ár. Hann kom aftur til landsins 1989 og þjálfaði hjá Breiðabliki til 1992 en eftir það lengst af hjá Val, að undanskildu einu tímabili, 1994-95, þegar hann þjálfaði í Ísrael. Hann þjálfaði karlalið ÍBV 1999-2001 og var á sama tíma aðstoðarþjálfari í íslenska karlalandsliðsins.

Ég verð aldrei kóngur

Boris fékk íslenskan ríkisborgararétt árið 1997 og tók þá upp nafnið Bjarni.

Boris fæddist í Sovétríkjunum árið 12. júlí árið 1933 og var menntaður íþróttafræðingur. Hann lék með sovéska landsliðinu á sjötta áratug síðustu aldar, sem hornamaður hægra megin.

Hann tók við þjálfun síns félags, Trud Moskva, sem síðan varð Kuntsevo Moskva, árið 1962, þjálfaði það um árabil og vann með því nokkra meistaratitla.

Boris var tækni- og þrekþjálfari sovéska landsliðsins með hléum á árunum 1967 til 1972, m.a. á heimsmeistaramótum og Ólympíuleikum, en starfaði síðan á ný hjá Kuntsevo þar til hann kom til Íslands árið 1980.

Hjá Val kom Boris að uppeldi og þróun fjölmargra íslenskra landsliðsmanna og þar má nefna Geir Sveinsson, Valdimar Grímsson, Jakob Sigurðsson, Júlíus Jónasson, Dag Sigurðsson og Ólaf Stefánsson sem allir hafa skýrt frá því í viðtölum hversu gríðarleg áhrif hann hafi haft á feril þeirra og þroska sem handknattleiksmenn. Boris einbeitti sér að tækni- og einstaklingsþjálfun hjá Val um árabil.

Boris lætur eftir sig eiginkonu, Olgu Akbashevu, en þau hafa verið búsett í Kópavogi um árabil. Sonur þeirra, Mickail Akbashev, hefur einnig starfað mikið við handknattleiksþjálfun hér á landi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert