Haukar hentu Íslandsmeisturunum úr leik

Natasja Hammer sækir að marki Fram í dag. Kristrún Steinþórsdóttir …
Natasja Hammer sækir að marki Fram í dag. Kristrún Steinþórsdóttir er til varnar. mbl.is/Arnþór

Haukar eru komnir í undanúrslitin í úrslitakeppni Íslandsmóts kvenna í handknattleik eftir frábæran sigur á Fram, 31:30, eftir framlengdan leik á Ásvöllum í dag. 

Haukar vinna því rimmuna 2:0 og mæta ÍBV í undanúrslitum. 

Haukakonur unnu óvænt fyrsta leik liðanna í Úlfarsárdal, 26:20, þar sem Elín Klara Þorkelsdóttir fór á kostum og skoraði 12 mörk.

Framkonur höfnuðu í fjórða sæti deildarinnar með 27 stig en Haukar í því fimmta með 14. Einnig hafði Framliðið verið á skriði undanfarið á meðan að Haukakonur höfðu tapað þremur leikjum í röð, þannig að úrslit fyrsta leiksins kveiktu heldur betur í einvíginu. 

Fram var staðráðið í að svara fyrir tapið og byrjaði leikinn mun betur og komst snemma fjórum mörkum yfir, nánar til tekið á 12. mínútu, 8:4. En eftir það voru Haukar mun sterkari aðilinn og fóru inn í hálfleikinn þremur mörkum yfir, 16:13, eftir að Ragnheiður Sveinsdóttir skoraði á lokasekúndu fyrri hálfleiksins. 

Haukar héldu forystu sinni mestallan seinni hálfleikinn en Framkonur héldu í við. Þegar fimm mínútur voru eftir var Haukaliðið yfir með fjórum, 27:23, en Fram náði að klóra sig aftur inn í leikinn. 

Fram fékk svo víti er leiktíminn rann út og staðan var 28:27, Haukum í vil. Á punktinn steig Perla Ruth Albertsdóttir og skoraði af öryggi og tryggði Framkonum framlengingu. 

Haukar voru yfir eða það var jafnt mestalla framlenginguna. Á síðustu mínútu leiksins jafnaði Perla Ruth metin fyrir Fram. 

Haukar fengu hins vegar lokasóknina og þar skoraði Elín Klara sigurmarkið með frábæru skoti utan teigs á síðustu sekúndu leiksins, og tryggði Haukum í undanúrslitin. 

Elín Klara var frábær í Haukaliðinu enn einu sinni og skoraði 11 mörk. Perla Ruth var markahæst hjá Fram með átta. 

Þetta var frábær sigur hjá Haukum sem sendi Íslandsmeistarana heim með sárt enni.

Haukar 31:30 Fram opna loka
70. mín. Perla Ruth Albertsdóttir (Fram) skoraði mark Perla jafnar! Rúm mínúta eftir.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert