Ógeðslega svekkjandi að þetta hafi verið síðasti leikurinn

Perla Ruth Albertsdóttir sækir að marki Hauka í sínum síðasta …
Perla Ruth Albertsdóttir sækir að marki Hauka í sínum síðasta leik fyrir Fram. mbl.is/Arnþór Birkisson

„Ég er orðlaus eftir þennan leik,“ sagði Framarinn Perla Ruth Albertsdóttir í samtali við mbl.is eftir eins marks tap gegn Haukum, 30:31, í úrslitakeppni Íslandsmótsins í handbolta á Ásvöllum í dag. Með tapinu er Fram úr leik. 

Hvað klikkaði í þessari rimmu?

„Það er erfitt að segja það svona strax eftir leik. En þær voru grimmari en við í þessu einvígi sem er ótrúlega svekkjandi. Svo áttum þær mögulega meira á tanknum þegar framlengingunni lauk. 

Í fyrsta leiknum gekk sóknarleikurinn mjög erfiðlega. Hann var mun betri í dag en það komu samt of margir kaflar þar sem við duttum niður. Það er stuttur tími á milli leikja og það var margt sem við þurftum að laga sem við náðum ekki nægilega mikið á þessum tíma.

Síðan var bara svakalegur karakter í Haukastelpunum og þær unnu okkur þar. Ég bara óska þeim til hamingju með þennan sigur.“

Þetta var síðasti leikur Perlu hjá Fram, í bili vill hún meina, en hún gengur til liðs við Selfoss á nýjan leik í sumar. Perla segist varla hafa fattað það beint eftir leik, en að það sé ógeðslega svekkjandi. 

„Ég var nú varla búin að fatta að þetta væri minn síðasti leikur fyrir Fram, en segjum að það sé bara í bili. Maður veit aldrei hvað framtíðin ber í skauti sér. 

En það er ógeðslega svekkjandi að þetta hafi verið síðasti leikurinn minn fyrir Fram í bili. Ég er ekki tilbúin að fara í sumarfrí, það er bara þannig,“ sagði Perla að lokum.  

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert