Elvar Örn Jónsson átti góðan leik fyrir Melsungen þegar liðið vann stórsigur gegn Erlangen. 31:18 á heimavelli í þýsku 1. deildinni í handknattleik í dag.
Elvar Örn skoraði fjögur mörk og þá skoraði Arnar Freyr Arnarsson eitt mark fyrir Melsungen sem er með 26 stig í 9. sætinu. Erlangen er með 24 stig í 10. sætinu en Ólafur Stefánsson er aðstoðarþjálfari liðsins.
Sveinn Jóhannsson skoraði eitt mark fyrir Minden þegar liðið tapaði á útivelli gegn Hamm, 26:31, en Minden er með 11 stig í 17. og næstneðsta sætinu, tveimur stigum frá öruggu sæti.
Rúnar Sigtryggsson og lærisveinar hans í Leipzig töpuðu svo með fimm marka mun á heimavelli gegn Stuttgart, 25:30, en Viggó Kristjánsson er frá keppni hjá Leipzig vegna meiðsla. Leipzig er með 24 stig í 12. sætinu.