KA/Þór vann gríðarlega sannfærandi 34:18-heimasigur á Stjörnunni í öðrum leik liðanna í 1. umferðinni í úrslitakeppni kvenna í handbolta í kvöld. Liðin mætast því í oddaleik næstkomandi sunnudag og sigurvegarinn mætir Val.
Ljóst var í hvað stefndi frá fyrstu mínútu, því KA/Þór komst í 9:1. Þá vöknuðu Stjörnukonur örlítið, en staðan í hálfleik var 17:7. Reyndist seinni hálfleikur formsatriði fyrir KA/Þór, sem jók muninn upp í 16 mörk.
Nathalía Baliana og Ida Margrethe Hoberg skoruðu sjö mörk hvor fyrir KA/Þór og Lydía Gunnþórsdóttir sex. Matea Lonac fór á kostum í markinu og varði 20 skot.
Lena Margrét Valdimarsdóttir skoraði sex mörk fyrir Stjörnuna, þar af fjögur úr vítum. Stefanía Theodórsdóttir og Helena Rut Örvarsdóttir gerðu þrjú hvor.