Arnar Freyr Arnarsson, landsliðsmaður í handknattleik, verður í herbúðum þýska 1. deildar liðsins Melsungen í eitt ár til viðbótar.
Arnar Freyr gekk til liðs við þýska félagið sumarið 2020 og skrifaði þá undir þriggja ára samning með möguleika á eins árs framlengingu.
Handbolti.is greinir frá því að Arnar Freyr og Melsungen hafi í sameiningu ákveðið að virkja ákvæðið í samningnum, sem rennur nú út sumarið 2024.
Hann er 27 ára gamall línumaður og öflugur varnarmaður sem er uppalinn hjá Fram og hefur einnig leikið með Kristianstad í Svíþjóð og GOG í Danmörku.