Framkvæmdastjóri Stjörnunnar segir félagið stefna ótrautt á að tefla fram sterkum liðum í karla- og kvennaflokki í handknattleik á næsta tímabili þrátt fyrir að rekstrarumhverfi handknattleiksdeildar félagsins hafi þyngst.
Aðalstyrktaraðili deildarinnar undanfarin ár, TM, verður það ekki áfram. Í skriflegu svari við fyrirspurn mbl.is um fjárhagsstöðu handknattleiksdeildar Stjörnunnar skrifaði Baldvin Sturluson framkvæmdastjóri:
„Róðurinn í rekstri íslenskra íþróttafélaga verður þyngri með hverjum deginum. Íþróttafélög sinna sífellt stærra hlutverki í samfélaginu og rekstur félaganna og fjárhagsstaða skiptir því samfélagið miklu máli.
Barna- og unglingastarf er mjög mikilvægt en afreksstarf er ekki síður mikilvægt því þar hafa börn og unglingar fyrirmyndir sem hvetja yngri iðkendur til þess að eflast og hafa að einhverju að stefna í æfingum sínum. Umræða um stöðu, hlutverk og starfsemi íþróttafélaga er því alltaf mikilvæg.“
Í svarinu fór Baldvin ekki ítarlega í saumana á fjárhagsstöðunni en tók þó fram að von væri á einhverjum áherslubreytingum vegna breytinga innan rekstrarumhverfis handknattleiksdeildarinnar.
„Varðandi fjármál Stjörnunnar almennt þá hefur félagið lagt allt kapp á að standa við skuldbindingar og mun halda því áfram. Í rekstri eins og okkar er óhjákvæmilegt að stundum þurfi að gera áherslubreytingar í rekstri vegna breytinga í rekstrarumhverfi.
Þó að einhverjar breytingar séu í farvatninu þá munum við mæta með flott lið á næsta ári bæði í karla- og kvennaflokki. Ársuppgjör Stjörnunnar er enn í vinnslu en það verður gert opinbert á aðalfundi félagsins í byrjun maí.“
Í samtali við Vísi í dag tók Patrekur Jóhannesson, þjálfari karlaliðsins og rekstrarstjóri handknattleiksdeildar Stjörnunnar, í svipaðan streng og sagði til að mynda að eiga mætti von á því að karlaliðið myndi stilla upp yngra liði á næsta tímabili.
„Það er ljóst að við þurfum að endurskipuleggja og við erum að vinna í því. Það verða einhverjar breytingar og það eru yngri leikmenn að koma upp. Við förum yfir stöðuna og finnum lausnir.
Við verðum áfram með sterkt lið. Við verðum kannski með aðeins yngra lið. Við gefumst aldrei upp í Garðabænum og mætum með flott lið á næsta ári,” sagði Patrekur meðal annars.