ÍR lagði Gróttu og fer í úrslit

ÍR-ingar fagna sigrinum í dag.
ÍR-ingar fagna sigrinum í dag. mbl.is/Óttar Geirsson

ÍR tryggði sér í dag sæti í úrslitum umspils um laust sæti í úrvalsdeild kvenna í handknattleik með því að vinna öruggan sigur á Gróttu, 28:21, í oddaleik liðanna í undanúrslitum umspilsins í Breiðholti í dag.

Mikið jafnræði var með liðunum til að byrja með en þegar fyrri hálfleikur var rúmlega hálfnaður hóf ÍR að ná undirtökunum.

Liðið komst þá 8:4 yfir, tók leikinn alfarið yfir og leiddi með tíu mörkum, 16:6, þegar flautað var til leikhlés.

Eftirleikurinn reyndist því auðveldur fyrir heimakonur, sem unnu að lokum þægilegan sjö marka sigur.

Karen Tinna Demian var markahæst í liði ÍR með sex mörk og Sólveig Lára Kjærnested bætti við fjórum mörkum.

Hildur Öder Einarsdóttir var öflug í marki ÍR með 13 varin skot og 38 prósent hlutfallsmarkvörslu.

Markahæst í leiknum var Katrín Helga Sigurbergsdóttir með sjö mörk fyrir Gróttu. Ída Margrét Stefánsdóttir skoraði þá fjögur mörk.

Soffía Steingrímsdóttir varði 14 skot í marki Gróttu.

ÍR mætir Selfossi í úrslitum umspilsins, þar sem ÍR-ingar freista þess að hrifsa úrvalsdeildarsætið af Selfyssingum.

Sólveig Lára Kjærnested í þann mund að skora eitt af …
Sólveig Lára Kjærnested í þann mund að skora eitt af fjórum mörkum sínum fyrir ÍR í dag. mbl.is/Óttar Geirsson
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert