Íslendingarnir markahæstir í naumum sigri í toppslagnum

Oddur Gretarsson skoraði fimm mörk í dag.
Oddur Gretarsson skoraði fimm mörk í dag. Ljósmynd/Balingen

Balingen lagði N-Lübbecke, 28:27, á heimavelli í toppslag þýsku B-deildarinnar í handolta karla í dag.

Oddur Gretarsson og Daníel Þór Ingason skoruðu fimm mörk hvor í liði Balingen og voru markahæstu leikmenn liðsins, ásamt Filip Vistorop sem skoraði sigurmark leiksins þegar tvær sekúndur voru eftir. Örn Vésteinsson Österberg er leikmaður N-Lübbecke en hann komst ekki á blað í leiknum.

Balingen er á toppi deildarinnar með 51 stig en fátt virðist geta komið í veg fyrir það að liðið spili í efstu deild á næsta tímabili. N-Lübbecke er í öðru sæti, sjö stigum á eftir Balingen þegar sjö umferðir eru eftir.

Arnór tapaði stórt

Arnór Þór Gunnarsson skoraði fjögur mörk fyrir Bergischer í tapi gegn Lemgo, 38:28, í þýsku 1. deildinni.

Bergischer er í 9. sæti deildarinnar með 26 stig eftir 27 leiki.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert