Helena Rut Örvarsdóttir, leikmaður Stjörnunnar, var hæstánægð í viðtali við mbl.is eftir sigur á KA/Þór í oddaleik í fyrstu umferð úrslitakeppni efstu deildar kvenna í handbolta í dag.
„Ég er heldur betur sátt með þetta. Við þurftum að svara fyrir okkur og ég er gríðarlega ánægð með liðið og að við höfum gert þetta svona hér í dag.“
Helena skoraði sjö mörk í dag og var frábær varnarlega. Hún var ánægð með að hafa skilað góðri frammistöðu.
„Mér fannst ég aðeins skulda liðinu sóknarlega. Í fyrsta leiknum var ég að láta boltann fljóta vel þótt ég hafi ekki skorað mikið en það gekk ekkert upp í leiknum fyrir norðan. Ég kemst í góð færi í dag og hitti betur á markið en áður, þannig það var mjög gott.“
Helena og Britney Cots voru frábærar í miðju varnarinnar hjá Stjörnunni í dag. Fyrir aftan þær stóð svo Darija Zecevic vaktina vel en hún varði 17 skot.
„Ég og Britney náðum vel saman í vörninni. Um leið og við náum vel saman í hávörninni og erum með Dariju fyrir aftan okkur, þá erum við geggjað teymi og við treystum hverri annarri fullkomlega, það sýndi sig í dag.“
Stjarnan mætir Val í undanúrslitum Íslandsmótsins. Leikir þessara liða í vetur hafa alla jafnan verið jafnir og spennandi og segist Helena vera spennt fyrir að mæta þeim.
„Við mætum fullar sjálfstrausts. Fáum smá tíma núna til að jafna okkur eftir góða þrjá leiki gegn KA/Þór. Margt sem við höfum gert gott og margt sem má laga en við tökum þetta góða með okkur í leikina á móti Val. Við höfum spilað vel á móti þeim í vetur og eigum sigurinn inni á móti þeim.“