Andri Snær Stefánsson, þjálfari KA/Þór, sagðist í samtali við mbl.is vera svekktur með niðurstöðuna eftir slæmt tap gegn Stjörnunni í fyrstu umferð úrslitakeppni efstu deildar kvenna í handbolta í dag.
„Ég er hundsvekktur með þetta tap. Við ætluðum okkur að klára Stjörnuna eftir að hafa haft gott tak á þeim fyrir norðan um daginn en við náðum því miður ekki að fylgja því eftir.“
Það vantaði uppá margt í leik KA/Þór í dag og það er leiðinlegt að tímabilið endi á svona slökum leik.
„Það er tvennt sóknarlega sem drepur okkur í dag. Við vorum ekki nógu áræðnar í okkar aðgerðum, það vantaði sjálfstraust í allt sem við gerðum. Hitt er það að við töpum allt of mörgum boltum hér í dag. Þar lá munurinn því að mörgu leyti var vörnin okkar góð í dag.“
KA/Þór var fjórum mörkum undir í hálfleik, 14:10. Síðari hálfleikur var hinsvegar mjög slakur hjá norðankonum og misstu þær Stjörnuna fljótt frá sér.
„Ég hefði viljað vera með betri stöðu í hálfleik. Þetta er svo fljótt að fara í seinni hálfleik þegar við erum að elta þær. Við förum í tilraunastarfsemi og reynum að brjóta þetta upp, það gengur stundum og stundum ekki. Það gekk ekki í dag og þannig er það bara.
Tímabilinu er lokið hjá KA/Þór og spurði fréttaritari Andra út í tímabilið og framhaldið.
„Ég er rosalega stoltur af tímabilinu að mörgu leiti, það hafa verið gríðarlega miklar breytingar á liðinu. Eftir tvö stór ár á undan þá höfum við misst einhverja tíu leikmenn og við göngum í gegnum mjög mikil meiðsli í vetur sem þýddi að við þurftum að teygja okkur niður í 3. flokkinn til að sækja leikmenn. Það er búin að fara í þetta mikil vinna hjá okkur Örnu að byggja upp nýtt lið, sem við höfum haft mjög gaman af. Það komu góðir sprettir hér og þar og miklar framfarir á liðinu en við sjáum til hvað framtíðin ber í skauti sér.“