Landsliðsmaðurinn Elliði Snær Viðarsson átti stórleik fyrir Gummersbach í heimasigri á Wetzlar, 37:30, í þýsku 1. deildinni í handbolta í dag.
Elliði skoraði sjö mörk og var næst markahæsti maður leiksins. Liðsfélagi hans Hákon Daði Styrmisson lagði eitt upp en Guðjón Valur Sigurðsson er þjálfari liðsins. Gummersbach er í 10. sæti með 26 stig.
Gísli Þorgeir Kristjánsson skoraði fimm mörk í eins marks sigri Magdeburg á Hannover-Burgdorf þar sem Heiðmar Felixsson er aðstoðarþjálfari.
Ómar Ingi Magnússon er, eins og flestum er kunnugt, meiddur en Hollendingurinn Kay Smiths hefur heldur betur stigið upp í fjarveru hans og skoraði til að mynda 11 mörk í dag.
Magdeburg er ásamt Kiel og Füchse Berlín í toppsætum deildarinnar, öll með 43 stig. Berlínarliðið vann Ými Örn Gíslason og liðsfélaga hans í RN Löwen sannfærandi, 38:24, í dag.
Að lokum skoraði Sveinn Jóhannsson eitt mark fyrir Minden í tapi liðsins gegn Erlangen, 28:29, þar sem Ólafur Stefánsson er aðstoðarþjálfari. Minden er í næstneðsta sæti með 11 stig.