Landsliðsmarkvörður á leiðinni í Val

Hafdís Renötudóttir.
Hafdís Renötudóttir. mbl.is/Kristinn Magnússon

Landsliðsmarkvörðurinn Hafdís Renötudóttir mun ganga til liðs við Val í sumar en hún er í dag leikmaður Fram.

Það er handbolti.is sem greinir frá en samkvæmt heimildum miðilsins mun samkomulag á milli Hafdísar og Vals liggja fyrir. Hafdís hefur verið lykilmaður í sigursælu liði Fram undanfarin ár en hún gekk til liðs við liðið árið 2019. Þá er þessi 25 ára gamli markvörður fastamaður í íslenska landsliðinu.

Líkt og handbolti.is bendir á er þetta enn eitt skarðið sem hoggið er í Íslandsmeistaralið Fram frá síðasta tímabili. Auk Hafdísar hafa Kristrún Steinþórsdóttir og Perla Ruth Albertsdóttir ákveðið að róa á önnur mið en fyrir ári yfirgáfu Hildur Þorgeirsdóttir, Emma Olsson og Stella Sigurðardóttir einnig félagið. Þá hefur Ragnheiður Júlíusdóttir verið frá keppni í meira en ár vegna veikinda og Karen Knútsdóttir verið í fæðingarorlofi.

Einnig hefur verið tilkynnt að Stefán Arnarson hætti þjálfun liðsins og Einar Jónsson taki við. Það verða því gífurlegar breytingar í Úlfarsárdalnum í sumar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert