Stjarnan sigraði KA/Þór í oddaleik í fyrstu umferð úrslitakeppni efstu deildar kvenna í handbolta í dag. Leikið var í TM-höllinni í Garðabæ og lokatölur urðu, 33:22, heimakonum í vil.
Úrslit leiksins í dag þýða það að Stjörnukonur mæta Val í undanúrslitum Íslandsmótsins en KA/Þór er fallið úr leik.
Stjörnukonur höfðu frumkvæðið frá byrjun til enda í dag. Þær komust í 3:0 þegar Lena Margrét Valdimarsdóttir skoraði sitt fyrsta mark í leiknum. Norðankonur bitu þá frá sér en náðu þó ekki að jafna leikinn, næst komust þær því þegar Ida Margrethe Hoberg skoraði og staðan orðin 6:5, heimakonum í vil.
Lena Margrét kom Stjörnukonum fjórum mörkum yfir þegar hún skoraði fínt mark og staðan orðin, 12:8. Það var síðan Helena Rut Örvarsdóttir sem átti lokaorðið í fyrri hálfleik er hún skoraði sitt þriðja mark í leiknum rétt áður en hálfleiksflautið gall. Staðan í hálfleik var 14:10, Garðbæingum í vil.
Síðari hálfleikur var jafn til að byrja með. Staðan var 17:13, fyrir heimakonur þegar 35 mínútur voru á klukkunni. Eftir það var aðeins eitt lið á vellinum og stungu Garðbæingar hreinlega af.
Andri Snær Stefánsson, þjálfari KA/Þór, reyndi að breyta varnarleiknum en það gekk ekki upp og Stjörnukonur sigruðu á endanum með 11 marka mun, 33:22.
Darija Zecevic, markvörður Stjörnunnar, var frábær í leiknum og varði 17 skot. Helena Rut Örvarsdóttir átti einnig frábæran leik fyrir heimakonur, var frábær í vörninni og fylgdi því eftir með sjö mörkum sóknarlega.
Hjá gestunum var Matea Lonac, markvörður, best en hún varði 13 skot. Ida Margrethe Hoberg var markahæst þeirra með átta mörk.