Hrannar Guðmundsson, þjálfari Stjörnunnar, var glaður í bragði þegar hann mætti til viðtals við mbl.is í dag eftir að Stjarnan vann KA/Þór, 33:22, í oddaleik í fyrstu umferð úrslitakeppni efstu deildar kvenna í handbolta.
„Ég er mjög sáttur, hrikalega ánægður með hvernig við svöruðum fyrir síðasta leik. Varnarleikurinn var frábær í dag, líkur þeim sem við buðum upp á í fyrsta leiknum í einvíginu. Ef við förum eftir því sem við leggjum upp með og allar vita hvað sú við hliðina á þeim ætlar að gera þá erum við með hörkugott lið.“
Darija Zecevic, markvörður Stjörnunnar, var frábær í dag og varði 17 skot. Hrannar segir að hún sé frábær leikmaður.
„Hún er frábær! Hún er einn besti, ef ekki sá besti markmaður í deildinni. Hún stóð sig frábærlega í dag eins og svo margar aðrar.“
Stjörnukonur mæta Val í undanúrslitum og er Hrannar spenntur að mæta þeim.
„Það verður gaman að mæta Val, við mætum fullar sjálfstraust inn í það einvígi. Valur er án efa best mannaða lið deildarinnar og það verður skemmtilegt verkefni að eiga við þær.“