Fyrirliðinn ekki með í lokaleikjunum

Aron Pálmarsson er að glíma við meiðsli og verður ekki …
Aron Pálmarsson er að glíma við meiðsli og verður ekki með gegn Ísrael. mbl.is/Kristinn Magnússon

Aron Pálmarsson, fyrirliði íslenska karlalandsliðsins í handknattleik, leikur ekki með liðinu gegn Ísrael og Eistland í undankeppni EM 2024 vegna meiðsla.

Þetta staðfesti leikmaðurinn í samtali við mbl.is en leikurinn gegn Ísrael fer fram í Tel Aviv í Ísrael á fimmtudaginn kemur og sá síðari gegn Eistlandi á sunnudaginn í Laugardalshöll.

Aron, sem er 32 ára gamall, hefur verið að glíma við meiðsli eftir áramót og missti til að mynda af lokaleikjum íslenska liðsins á HM í Svíþjóð í janúar vegna meiðsla.

Hann er samningsbundinn Aalborg í dönsku úrvalsdeildinni en mun ganga til liðs við uppeldisfélag sitt FH í sumar.

Um er að ræða lokaleiki Íslands í undankeppninni en Ísland er með 6 stig í efsta sæti 3. riðil, líkt og Tékkland, og öruggt með sæti í lokakeppninni sem fram fer í Þýskalandi í janúar á næsta ári.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert