Handknattleiksmaðurinn Viktor Sigurðsson hefur komist að samkomulagi við handknattleiksdeild Vals um að leika með liðinu næstu þrjú árin.
Viktor, sem er 21 árs, kemur frá uppeldisfélagi sínu ÍR, þar sem hann lék frábærlega en tókst þó ekki að koma í veg fyrir fall liðsins niður í næstefstu deild á nýafstöðnu tímabili.
Hann skoraði 127 mörk í 22 leikjum og varð með því fjórði markahæsti leikmaður úrvalsdeildarinnar
Fyrr í mánuðinum tilkynnti ÍR að Viktor hygðist róa á önnur mið og greindi Handbolti.is þá frá því að hann væri á leið í Val.
Nú hefur Valur tilkynnt um skiptin og er Snorri Steinn Guðjónsson, þjálfara karlaliðsins, afar spenntur fyrir því að vinna með Viktori.
„Viktor er gríðarlega efnilegur og hefur vakið mikla athygli í Olísdeildinni. Við höfum fylgst með honum lengi enda með spennandi eiginleika sem leikmaður sem verður gaman að vinna með.
Hann mun passa vel við okkar leikstíl og ekki skemmir fyrir að þetta er góður drengur sem talað er vel um upp í Breiðholti. Við hlökkum til að aðstoða hann í að bæta sig og ná markmiðum sínum hér að Hlíðarenda,“ sagði hann í tilkynningu frá handknattleiksdeild Vals.