Annar Valsari til þýska stórliðsins

Arnór Snær Óskarsson skrifaði undir tveggja ára samning í Þýskalandi.
Arnór Snær Óskarsson skrifaði undir tveggja ára samning í Þýskalandi. Ljósmynd/Bundesliga

Handknattleiksmaðurinn Arnór Snær Óskarsson er genginn til liðs við þýska stórliðið Rhein-Neckar Löwen og skrifaði hann undir tveggja ára samning við félagið.

Þetta tilkynnti félagið á samfélagsmiðlum sínum í morgun en Arnór Snær, sem er 23 ára gamall, kemur til félagsins frá uppeldisfélagi sínu Val á Hlíðarenda.

Arnór Snær verður þar með annar Valsarinn í herbúðum þýska félagsins en Ýmir Örn Gíslason gekk einnig til liðs við félagið frá Val í febrúar 2020.

Löwen er sem stendur í 5. sæti þýsku 1. deildarinnar með 37 stig, sex stigum minna en topplið Kiel, en Arnór Snær mun ganga formlega til liðs við félagið í sumar að yfirstandandi tímabili loknu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert