Handknattleiksþjálfarinn Christian Berge hefur átt í viðræðum við HSÍ um að taka við þjálfun íslenska karlalandsliðsins í handknattleik.
Þetta staðfesti hann í samtali við norska miðilinn Adresseavisen en mbl.is greindi fyrstur miðla frá því að Berge væri efstur á óskalista forráðamanna HSÍ um að taka við landsliði Íslands.
Berge, sem er 49 ára gamall, stýrir stórliði Kolstad í Noregi en hann stýrði norska landsliðinu samfleytt frá árinu 2014 til ársins 2022.
„Mér líður ótrúlega vel í starfi mínu hjá Kolstad en ég sakna alþjóðahandboltans og stórmótanna í janúar,“ sagði Berge.
„Það er ekki heilbrigt að hugsa of lengi og ég á von á því að taka ákvörðun fljótlega. Ég mun ræða aftur við forráðamenn HSÍ og svo sjáum við til.
Ég reikna með því að einhver ákvörðun verði tekin í vikunni,“ bætti Berge við í samtali við Adresseavisen.