Nýtt þjálfarateymi fyrir norðan

Halldór Örn Tryggvason, Viðar Ernir Reimarsson, Kristján Páll Steinsson og …
Halldór Örn Tryggvason, Viðar Ernir Reimarsson, Kristján Páll Steinsson og Brynjar Hólm Grétarsson eftir undirskrift í dag. Ljósmynd/Þór

Handknattleiksdeild Þórs frá Akureyri hefur tilkynnt um nýtt þjálfarateymi karlaliðsins á næsta tímabili. Halldór Örn Tryggvason tekur við stjórnartaumunum að nýju og þá snýr Brynjar Hólm Grétarsson heim og verður spilandi aðstoðarþjálfari.

Halldór Örn var aðstoðarþjálfari Stevce Alusovski hjá Þór í eitt og hálft tímabil áður en Norður-Makedóníumaðurinn var rekinn í nóvember síðastliðnum.

Í tvö ár þar á undan hafði Halldór Örn verið aðalþjálfari Þórs, fyrst í úrvalsdeild og svo í næstefstu deild, þar sem liðið leikur áfram á næsta tímabili.

Brynjar, sem er 29 ára gamall, hefur leikið með Stjörnunni undanfarin þrjú ár en hafði þar á undan leikið með Þór og sameiginlegu félagi Akureyrar í meistaraflokki.

Hann snýr nú aftur í heimahagana og tekur við sínu fyrsta aðstoðarþjálfarastarfi ásamt því að halda áfram að spila.

Um leið og handknattleiksdeild Þórs tilkynnti um ráðninguna á þjálfarateyminu var tilkynnt að búið væri að semja við tvo unga leikmenn karlaliðsins.

Þar er um að ræða markvörðinn Kristján Pál Steinsson og vinstri skyttuna Viðar Erni Reimarsson.

Allir fjórir skrifuðu undir tveggja ára samninga við Akureyrarfélagið.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert