Víkingar hafa náð undirtökunum í einvíginu við Fjölni um sæti í úrvalsdeild karla í handknattleik eftir sigur í fyrsta úrslitaleik liðanna í Safamýri í kvöld, 32:25.
Fjölnir byrjaði betur og komst í 3:0. Víkingar jöfnuðu fljótlega og sigldu síðan smám saman fram úr. Mest munaði sex mörkum, þeim í hag, í fyrri hálfleik en að honum loknum stóð 18:13.
Víkingar komust fljótlega átta mörkum yfir í seinni hálfleiknum og sigur þeirra var aldrei í minnstu hættu.
Gunnar Valdimar Johnsen skoraði sjö mörk fyrir Víking, Igor Mrsulja fimm, Jóhann Reynir Gunnlaugsson fjögur og Halldór Ingi Jónasson fjögur.
Benedikt Marinó Herdísarson skoraði sex mörk fyrir Fjölni og Sigurður Örn Þorsteinsson fimm.
Annar leikur liðanna fer fram í Grafarvogi á föstudagskvöldið en vinna þarf þrjá leiki til að tryggja sér úrvalsdeildarsætið.