Á ársþingi Handknattleikssambands Íslands sem haldið verður í Laugardalshöllinni á sunnudaginn verða lagðar fram tvær tillögur um breytingar á keppnisfyrirkomulagi á Íslandsmóti kvenna.
KA/Þór leggur til að liðum í deildinni verði fjölgað úr átta í tíu fyrir næsta keppnistímabil, 2023-24. Átta efstu liðin fari í útsláttarkeppni um Íslandsmeistaratitilinn, liðið í níunda sæti í umspil en neðsta liðið falli niður í 1. deild.
Fjölnir leggur til að öll meistaraflokksliðin, allt að fjöldanum sextán, leiki í einni deild. Átta efstu liðin fari í úrslitakeppni um Íslandsmeistaratitilinn en hin liðin fari í B-úrslitakeppni. Verði liðin 17 eða fleiri verði spilað í tveimur deildum.
Á tímabilinu sem er að ljúka léku níu lið í 1. deild kvenna, sex þeirra voru meistaraflokkslið en hin þrjú ungmennalið félaga úr úrvalsdeildinni. Það voru því fjórtán félög með meistaraflokkslið á Íslandsmótinu.
Þá leggur HSÍ fram tillögu um að umspil í 1. deild karla verði einfaldað, undanúrslitin felld niður og liðin í öðru og þriðja sæti heyi allt að fimm leikja einvígi um hvort þeirra fylgi sigurliðinu upp í úrvalsdeildina.