Víkingar einu skrefi frá úrvalsdeildinni

Gunnar Valdimar Johnsen skoraði fimm mörk fyrir Víking í kvöld.
Gunnar Valdimar Johnsen skoraði fimm mörk fyrir Víking í kvöld. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Víkingar eru einum leik frá því að tryggja sér sæti í úrvalsdeild karla í handknattleik eftir sigur á Fjölnismönnum í Grafarvogi í kvöld, 29:25.

Staðan í einvíginu er 2:0, Víkingum í hag, og þeir geta tryggt sér úrvalsdeildarsætið á heimavelli sínum í Safamýri þegar liðin mætast þar í þriðja sinn á mánudaginn.

Fjölnir var lengi vel yfir í leiknum í kvöld, komst í 13:10 í fyrri hálfleik og var yfir, 15:11, að honum loknum.

Í seinni hálfleik komust Fjölnismenn í 19:16 en Víkingar jöfnuðu í 20:20. Á lokamínútunum sigu Víkingar síðan fram úr og tryggðu sér sigurinn.

Arnar Gauti Grettisson og Gunnar Valdimar Johnsen skoruðu fimm mörk hvor fyrir Víking og Igor Mrsulja fjögur.

Björgvin Páll Rúnarsson skoraði sjö mörk fyrir Fjölni og Viktor Berg Grétarsson sex.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert