EH Aalborg tryggði sér í dag sæti í úrslitaeinvígi umspils um sæti í efstu deild kvenna í handbolta með 26:23-heimasigri á Holstebro. Aalborg vann einvígið 2:1.
Andrea Jacobsen komst ekki á blað hjá Aalborg, en Bertha Rut Harðardóttir gerði eitt mark fyrir Holstebro.
Aalborg mætir annað hvort Ajax eða Skanderborg í úrslitaeinvíginu. Steinunn Hansdóttir leikur með Skanderborg.
Andrea framlengdi á dögunum samning sinn við Aalborg og landsliðsmarkvörðurinn Elín Jóna Þorsteinsdóttir gengur í raðir félagsins eftir tímabilið.