„Get hugsað mér að endursemja“

Kristján Örn Kristjánsson.
Kristján Örn Kristjánsson. mbl.is/Kristinn Magnússon

Kristján Örn Kristjánsson lék vel með íslenska landsliðinu í handbolta þegar það tryggði sæti sitt í lokakeppni EM með góðum sigri á Ísrael ytra í vikunni en hann skoraði átta mörk í leiknum.

„Maður er alltaf að reyna að bæta sig meira og meira. Ég er kominn í gott líkamlegt form en þetta var fyrst og fremst góður liðssigur,“ sagði Kristján í samtali við mbl.is í Laugardalshöll í dag.

Þeir vildu ekki hleypa Óðni inn“

„Þeir vildu ekki hleypa Óðni inn úr horninu svo ég þurfti að klára færin sjálfur. Ég vona að Eistar loki betur svo ég geti sent nokkra bolta á hann,“ sagði Kristján og glotti.

Ísland tekur á móti Eistlandi í lokaleik 3. riðils undankeppni Evrópumótsins í Laugardalshöll á morgun. Íslenska liðið er með örlögin í sínum höndum en sigur á morgun tryggir efsta sætið í riðlinum og þar með verður Ísland í 1. styrkleikaflokki þegar dregið verður í riðla fyrir lokakeppnina sem fram fer í Þýskalandi í janúar.

„Þessi leikur skiptir öllu máli. Það gerir okkur auðveldara fyrir að komast áfram á Ólympíuleika ef við höfnum í 1. styrkleikaflokki,“ sagði hann.

Spila bara sinn leik

Kristján sagði íslenska liðið þurfi að aðlaga sig að leik Eista en þeir tefla fram tveimur nýjum leikmönnum sem tóku ekki þátt í fyrri leik liðanna.

„Þeir eru komnir með tvo leikmenn sem voru ekki með seinast, tvær skyttur sem geta skotið vel á markið. Annars spilum við bara okkar leik, treystum á okkar kerfi og sjáum hvernig leikurinn mun þróast,“ sagði Kristján.

Líður vel í Frakklandi

Kristján Örn hefur leikið vel fyr­ir Aix í efstu deild franska hand­bolt­ans en hann sagði að samningamál hans skýrist á næstu dögum.

„Ég á eitt tímabil eftir af samningi. Það kemur í ljós á næstu dögum hvort klúbburinn vilji endursemja og hvort aðrir séu eitthvað að skoða málin. Mér líður vel eins og staðan er núna í Frakklandi og ég get vel hugsað mér að endursemja ef það býðst en þetta er allt opið hjá mér.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert