ÍBV lagði Hauka, 29:22, í fyrsta leik liðanna í undanúrslitum úrvalsdeildar kvenna í handbolta í Vestmannaeyjum í dag.
Hrafnhildur Hanna Þrastardóttir var markahæst heimakvenna með 11 mörk en þær Elín Klara Þorkelsdóttir og Natasja Hammer skoruðu sín 7 mörkin hvor fyrir Hauka. Næsti leikur í einvíginu verður á Ásvöllum á mánudag, 1. maí.
Heimakonur byrjuðu betur og komust þremur mörkum yfir. Gestirnir vöknuðu þá til lífsins, skoruðu þrjú mörk í röð og jöfnuðu metin í stöðunni 7:7 um miðjan fyrri hálfleikinn. ÍBV var sterkari aðilinn í seinni hluta fyrri hálfleiks en Haukar aldrei langt undan. Hálfleikstölur 12:10.
Haukar skorðu fyrstu þrjú mörkin í seinni hálfleik og komust einu marki yfir, 13:12 þegar um fjórar mínútur voru liðnar af seinni hálfleiknum. ÍBV komst ekki á blað fyrstu sex mínúturnar í hálfleiknum en þá hjó fiskaði Sunna Jónsdóttir víti sem Hrafnhildur Hanna skoraði úr.
Eftir þetta var eins og ÍBV hafi fengið aukinn kraft en Harpa Valey Gylfadóttir skoraði tvö mörk úr hraðaupphlaupum með nokkurra sekúndna millibili og ÍBV komið tveimur mörkum yfir. Það dró sundur með liðunum þegar leið á seinni hálfleikinn og ÍBV landaði að lokum sjö marka sigri.
Mbl.is fylgdist með gangi mála og færði ykkur það helsta í beinni textalýsingu.