ÍR er einum sigri frá því að taka úrvalsdeildarsætið af Selfossi eftir 29:28-heimasigur í öðrum leik liðanna í umspili um sæti í efstu deild kvenna í handbolta.
Er staðan í einvíginu 2:0, en þrjá sigra þarf til að fagna sigri.
Úrslitin réðust eftir framlengingu og mikla spennu. Staðan eftir venjulegan leiktíma var 23:23 og að lokum var ÍR ögn sterkara í framlengingunni.
Karen Tinna Demian átti stórgóðan leik fyrir ÍR og skoraði 14 mörk. Hildur Öder Einarsdóttir lék einnig virkilega vel í marki liðsins og varði 17 skot.
Landsliðskonan Katla María Magnúsdóttir fór hamförum hjá Selfossi og skoraði 16 mörk. Því miður fyrir hana dugðu þau ekki til.
Þriðji leikur einvígisins fer fram á Selfossi miðvikudaginn 3. maí.