Liðið gerir kröfu á sigur á heimavelli

Gunnar Magnússon og Ágúst Þór Jóhannsson stýra íslenska landsliðinu um …
Gunnar Magnússon og Ágúst Þór Jóhannsson stýra íslenska landsliðinu um þessar mundir. mbl.is/Kristinn Magnússon

„Það er alltaf gaman að spila í fullri höll og það eru bara forréttindi fyrir okkur,“ sagði Gunnar Magnússon, annar þjálfara íslenska karlalandsliðsins í handbolta í samtali við mbl.is í Laugardalshöll í dag.

Ísland tekur á móti Eistlandi í lokaleik 3. riðils undankeppni Evrópumótsins í Laugardalshöll á morgun en íslenska liðið tryggði sæti sitt á EM með góðum sigri á Ísrael ytra í vikunni.

„Ætlum að vinna riðilinn“

Gunnar sagði leikinn þrátt fyrir það gríðarlega mikilvægan. „Við erum ekki búnir að ná okkar markmiðum ennþá. Við ætlum að vinna riðilinn og tryggja okkur í 1. styrkleikaflokk á EM.“

Næsta ár gæti orðið stórt fyrir landsliðið en Evrópumeistaramótið fer fram í Þýskalandi í janúar og þá eru Ólympíuleikar í París næsta sumar.

Gunnar sagði hópinn óbreyttan frá í Ísrael. „Það eru allir heilir og ferskir eftir leikinn og ferðalagið. Þannig að það eru bara sömu menn í hóp á morgun.“

Sterkara lið þó laskað sé

Íslenska liðið hefur orðið fyrir skakkaföllum síðan á HM í janúar. Landsliðsfyrirliðinn Aron Pálmarsson er frá vegna meiðsla en hann hefur lítið leikið með Aalborg undanfarnar vikur. Þá er Ómar Ingi Magnússon meiddur en hann gekkst undir aðgerð á hásin í febrúar. Eins eru skytturnar Viggó Kristjánsson og Ólafur Guðmundsson einnig fjarri góðu gamni.

„Við erum klárlega með sterkara lið og teljum okkur eiga að vinna Eista á heimavelli en það er ekkert sjálfgefið. Við þurfum að sýna það inni á vellinum að við séum sterkari en þeir. Það er ekkert mál að tala um að við séum betri en við þurfum fyrst og fremst að sýna það í verki inn á vellinum.“

Aðeins öðruvísi og með betri skotmenn

Gunnar sagði uppleggið vera svipað og það hefur verið. „Eistar eru aðeins öðruvísi en Ísrael. Þeir eru með betri skotmenn utan af velli og aðeins öðruvísi lið. Við erum með okkar, fókusum mikið á okkur og að við náum að framkvæma þetta eins og við viljum gera þetta,“ segir Gunnar og bætir því við að áhersla sé lögð á að liðið nái að sýna sinn leik.

Hann sagðist búast við að þeir Ágúst muni nota hópinn á morgun.

„Við höfum verið að rúlla þokkalega síðustu leiki en það eina sem við hugsum um á morgun er að við þurfum sigur. Það er það sem skiptir máli. Það er það mikið undir. Við þurfum að loka þessum riðli á sigri. Það er einn leikur eftir og eitt skref eftir sem við ætlum að taka á morgun.“

Hver leikur á sitt eigið líf

Þjálfarar Íslands voru mjög ánægðir með frammistöðuna gegn Ísrael í vikunni að sögn Gunnars.

„Við náðum þunganum strax í leiknum og hleyptum þeim aldrei aftur inn í leikinn. Það var bara fagmannlega gert þannig að ég var mjög ánægður með frammistöðuna í síðasta leik.“

Gunnar sagði þó hvern leik hafa sitt eigið líf og að leikurinn á morgun sé nýtt verkefni.

„Eistar eiga væntanlega möguleika á að fara á EM líka með sigri. Við þurufm bara að mæta klárir og það er svolítið okkar að sýna stöðugleika í frammistöðu. Við gerum kröfu á að eiga góðan leik og að við sýnum alvöru frammistöðu.“

Hann sagði að liðið geri auðvitað kröfu á að vinna Eista á heimavelli og það hjálpa mikið að liðið sé sterkt á heimavelli.

„Við hlökkum bara til og ætlum að sýna alvöru frammistöðu á morgun.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert