Þurfum að fá meira framlag frá fleiri leikmönnum

Ágúst Þór Jóhannsson
Ágúst Þór Jóhannsson Ljósmynd/Sigfús Gunnar

Ágúst Þór Jóhannsson þjálfari Vals var ekki kátur með tap sinna kvenna í fyrsta leik undanúrslitaeinvígisins á Íslandsmótinu í handbolta í dag.

Valskonur leiddu leikinn framan af en leikurinn varð jafnari eftir því sem á leið. Á endanum voru það Stjörnukonur sem sigruðu eftir framlenginu þar sem Valskonur virtust brotna undan pressunni.

Hvað gerðist hjá þínu liði í framlengingunni?

„Við fáum tvær yfirtölur í framlengingunni sem við nýtum ekki og það var dýrt og er mjög dýrt á svona tímapunkti þar sem hvert mark telur auðvitað. Við náum ekki að skora. Þær skora þegar höndin hjá dómaranum er uppi og Helena skorar glæsilegt mark nánast frá miðju og þetta datt svolítið með þeim á meðan allt var stöngin út hjá okkur hérna í lokin.

Hvernig leggur þú framhaldið upp eftir tap í fyrsta leik?

„Nú þurfum við bara að fara vel yfir okkar leik, spila betur og fínpússa nokkur atriði. Stjarnan er frábært lið og reynslumikið. Það er talað um að við eigum að valta yfir Stjörnuna og það er bara af og frá. Þær eru mjög góðar og reynslumiklar.“

Hrafnhildur ver 18 skot í leiknum. Slíkt framlag markvarðar á að duga til að vinna leikinn ekki satt?

„Hrafnhildur stóð sig frábærlega í leiknum en við klúðrum 29 skotum í leiknum og það er mjög dýrt. Við þurfum að fá meira framlag frá fleiri leikmönnum og ég er sannfærður um að við fáum það á mánudaginn,“ sagði Ágúst.  

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert