Stjarnan hafði betur gegn Val, 32:28, í fyrsta leik undanúrslita Íslandsmóts kvenna í handbolta á Hlíðarenda í dag. Úrslitin réðust eftir framlengingu og mikla spennu.
Liðin höfðu leikið þrisvar sinnum gegn hvort öðru í vetur þar sem Valur vann tvo leiki og einn endaði með jafntefli. Valur endaði í öðru sæti í deildinni og Stjarnan í því þriðja. Fyrir leik var því Valur talið sigurstranglegra liðið.
Leikurinn byrjaði strax af miklum krafti og var jafnt á öllum tölum frá upphafi til enda. Valur skoraði fyrsta mark leiksins en Stjörnuskonur jöfnuðu jafnóðum. Þannig gekk leikurinn alveg þangað til í stöðunni 7:7 komust Stjörnukonur yfir í fyrsta skiptið í leiknum 8:7. Valskonur náðu að jafna og komast aftur yfir. Þær voru síðan með yfirhöndina það sem eftir lifði fyrri hálfleiks og komust mest tveimur mörkum yfir. Staðan í hálfleik 14:13.
Síðari hálfleikur var gríðarlega spennandi og skiptust liðin á því að ná forystunni þó að Valur hafi átt auðveldara með sínar aðgerðir í leiknum framan af. Markverðirnir léku lykilhlutverk og héldu liðum sínum inni í leiknum. Eftir 60 mínutur var staðan jöfn 25:25 og því þurfti að framlengja.
Í framlengunni mátti merkja mikla spennu í leikmönnum og skiptust bæði lið á að gera dýrkeypt mistök og tapa boltanum. Lið Stjörnunnar var þó fyrra til að hrista af sér stressið og tóku yfir leikinn á meðan Valskonur gerðu hver mistökin á fætur öðru. Það skemmdi heldur ekki fyrir að Darija Zecevic markvörður Stjörnunnar varði þrjú góð færi í framlengingunni og 18 skot í öllum leiknum.
Maður leiksins í liði Stjörnunnar var þó Helena Rut Örvarsdóttir sem skoraði 9 mörk í leiknum. Í liði Vals átti Hrafnhildur Anna Þorleifsdóttir frábæran leik og varði einnig 18 skot, þar af eitt víti og Þórey Anna Ásgeirsdóttir skoraði 6 mörk.
Það er því ljóst að Stjarnan er komin með frábæra stöðu fyrir leik tvö á sem fer fram á þeirra heimavelli í Garðabæ.