Helena Rut Örvarsdóttir var heldur betur ánægð með sigur Stjörnunnar á liði Vals í fyrsta leik undanúrslitaeinvígisins. Leikurinn endaði í framlengingu þar sem Stjarnan sigraði að lokum 32:28.
Hvað var það sem gerði gæfumuninn í leiknum?
„Við vorum ekki nógu ánægðar með fyrri hálfleikinn og töldum okkur eiga alveg 30% getu inni. Við leyfðum þeim að teygja of mikið á okkur varnarlega og bökkuðum of mikið þegar skytturnar þeirra komu á okkur.
Seinni hálfleikurinn var betri, þá mættum við skyttunum þeirra betur og Darija kom sterk inn í markinu. Við hefðum getað klárað þetta í venjulegum leiktíma en það var bara fínt að koma inn í framlenginguna á skriði.
Mér fannst við vera með þær varnarlega í framlengingunni þrátt fyrir að við værum einum færri til að byrja með og við settum góð mörk á þær og lönduðum sigrinum. En fyrst og fremst var það markvarslan og mörk á góðum augnablikum í framlengingunni sem færði okkur sigurinn,“ sagði Helena við mbl.is.