Bjarki Már Elísson var markahæstur í íslenska landsliðinu í handbolta, með átta mörk, er það vann sjö marka sigur á Eistlandi, 30:23, í undankeppni EM í Laugardalshöll í dag.
Með sigrinum tryggði Ísland sér efsta sæti þriðja riðils og sæti í efsta styrkleikaflokki þegar dregið verður í riðla í næsta mánuði.
„Ég hefði viljað stærri sigur í dag, en það skiptir ekki máli. Það var full höll og þetta var sannfærandi frá byrjun og aldrei í hættu. Við erum sáttir og nú getum við látið okkur hlakka til þegar dregið verður í riðla í maí,“ sagði Bjarki.
Íslenska liðið var með 17:10-forskot í hálfleik og skoruðu bæði lið 13 mörk í seinni hálfleik. „Það voru fullt af strákum að koma inn og Eistarnir eru ekkert lélegir, þótt við séum sterkari. Tempóið breytist aðeins þegar það er komin svona mikill munur, en við unnum og það er það sem telur.“
Lokamótið fer fram í janúar á næsta ári og einbeitir Bjarki sér núna að því að klára tímabilið með ungverska stórliðinu Veszprém, áður en hann fer að hugsa of mikið um EM. „Við vorum að klára þennan leik og svo klárum við tímabilið með okkar félagsliðum. Svo kemur tilhlökkunin þegar við förum í sumarfrí,“ sagði Bjarki.