„Þetta var fagmannlega gert,“ sagði Gísli Þorgeir Kristjánsson, leikstjórnandi íslenska landsliðsins í handbolta, í samtali við mbl.is eftir 30:23-heimasigur á Eistlandi í kvöld.
Með sigrinum tryggði Ísland sér toppsæti þriðja riðils í undankeppni EM og sæti í efsta styrkleikaflokki á lokamótinu.
„Þetta var flott á öllum sviðum fyrstu 40 mínúturnar. Eftir það slökuðum við aðeins á, en það er ekki hægt að kvarta yfir sjö marka sigri hérna heima,“ sagði Gísli, en Ísland var sjö mörkum yfir í hálfleik.
Hann er ánægður með þróunina á varnarleiknum í undanförnum leikjum, en hann var nokkuð gagnrýndur á HM í Svíþjóð í byrjun árs.
„Vörnin var líka frábær og það hefur verið rosalega gaman að sjá hana þróast á undanförnum vikum. Við vorum rosalega þéttir og Viktor frábær þar fyrir aftan. Hann fékk góða hjálp frá Ými og þeim og þétt leikinn í vörninni var gríðarlegur,“ sagði Gísli. Hann var ekki síður sáttur við sóknarleikinn, sérstaklega í fyrri hálfleik.
„Við vorum með hátt í 90 prósent nýtingu í sókninni í fyrri hálfleik. Það er ekki sjálfgefið. Við fegnum dauðafæri í nánast hverri einustu sókn. Stuðningurinn var líka virkilega góður og það er alltaf gaman að koma og spila í höllinni.“
Gísli hefur undanfarin ár leikið með Magdeburg og Kiel í Þýskalandi og þekkir hann því þýskan handbolta vel. EM fer einmitt fram þar í landi. „Þjóðverjarnir gera þetta helvíti vel. Mitt fyrsta stórmót var í Þýskalandi og umgjörðin var mögnuð. Þjóðverjarnir eru með þetta í teskeið,“ sagði Gísli.