Færeyjar á EM í fyrsta skipti

Færeyjar verða með á EM á næsta ári.
Færeyjar verða með á EM á næsta ári. Ljósmynd/EHF

Færeyjar eru komnar á lokamót EM karla í handbolta, þrátt fyrir 33:38-tap á útivelli gegn Austurríki í fjórða riðli undankeppninnar í dag. Færeyjar enda í þriðja sæti riðilsins og er eitt fjögurra liða með bestan árangur í þriðja sæti í sínum riðli.

Færeyingar unnu glæsta heimasigra á Úkraínu og Rúmeníu í riðlinum, sem að lokum nægði til að komast á lokamót í fyrsta skipti, en mikill uppgangur hefur verið í færeyskum handbolta á undanförnum árum.

Grikkland og Georgía eru einnig á leiðinni á sitt fyrsta Evrópumót. 

Undankeppninni fyrir EM lauk í dag og er ljóst hvaða 24 lið leika á mótinu, en þau eru eftirfarandi:

Þýskaland, Svíþjóð, Danmörk, Spánn, Portúgal, Norður-Makedónía, Noregur, Serbía, Ísland, Tékkland, Austurríki, Rúmenía, Færeyjar, Holland, Króatía, Grikkland, Ungverjaland, Sviss, Georgía, Slóvenía, Bosnía, Svartfjallaland, Frakkland og Pólland.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert