Ísland tryggði sér í dag efsta sæti riðils 3 í undankeppni Evrópumóts karla í handbolta með öruggum 30:23-heimasigri á Eistlandi í Laugardalshöll. Ísland verður í efsta styrkleikaflokki þegar dregið verður í riðla fyrir lokamótið í Þýskalandi.
Íslenska liðið náði undirtökunum snemma leiks og þegar fyrri hálfleikur var hálfnaður munaði fjórum mörkum, 8:4. Skömmu síðar var staðan orðin 10:4. Þá beit Eistland aðeins frá sér, en að lokum munaði sjö mörkum í hálfleik, 17:10.
Viktor Gísli Hallgrímsson stóð vaktina mjög vel í íslenska markinu og varði 13 skot, þar af eitt víti, fyrir framan vörn sem stóð vaktina vel stóran hluta hálfleiksins.
Hinum megin skorað Ísland úr mun fleiri sóknum en ekki og gekk vel að skapa sér færi. Þá fékk íslenska liðið nokkuð af hraðaupphlaupum, sem nýttust vel.
Bjarki Már Elísson var oftar en ekki fremstur í flokki, en hann gerði átta mörk í fyrri hálfleiknum, þar af tvö úr víti. Sigvaldi Björn Guðjónsson, félagi hans í horninu hinum megin, skoraði fjögur.
Ísland hélt undirtökunum í seinni hálfleik og komst snemma tíu mörkum yfir, 21:11. Þá tók eistneska liðið við sér og var munurinn 7-9 mörk næstu mínútur. Rasmus Ots fór að reynast íslenska liðinu erfiður í marki Eistlands.
Þrátt fyrir það var forskotið aldrei í hættu og var munurinn níu mörk þegar fimm mínútur voru eftir, 30:21. Eistland skoraði tvö síðustu mörkin og var munurinn því sjö mörk í lokin.