Þýska karlalandsliðið í handknattleik, sem Alfreð Gíslason þjálfar, vann afar sterkan sigur á því spænska, 32:31, þegar liðin áttust við í EHF-bikarnum í dag.
Þjóðverjar hlupu yfir Spánverja í fyrri hálfleiknum og leiddu með níu mörkum að honum loknum, 20:11.
Allt annað var hins vegar að sjá til spænska liðsins í síðari hálfleik þar sem það minnkaði muninn jafnt og þétt en komst næst þýska liðinu í blálokin með því að minnka muninn niður í eitt mark.
Keppni er lokið í EHF-bikarnum þar sem Þýskaland hafnaði í fjórða og síðasta sæti með 2 stig, jafnmörg og Spánn sæti ofar.
Danmörk vann mótið eftir að hafa safnað sér inn 10 stigum, líkt og Svíþjóð í öðru sæti, en innbyrðis viðureignir skáru úr um efsta sætið, þar sem Danir stóðu betur að vígi.