„Myndum fylla ennþá stærri hallir“

Björgvin Páll Gústavsson.
Björgvin Páll Gústavsson. mbl.is/Kristinn Magnússon

„Það gefur okkur helling að vita það að áður en leikurinn úti er spilaður þá er orðið uppselt heima. Það þarf ekki að auglýsa þetta lengur,“ sagði Björgvin Páll Gústavsson í samtali við mbl.is í Laugardalshöll í gær.

„Það er orðið þannig að það er bara automatískt full höll og kannski bara sorglegt að við séum ekki í stærri höll sem tekur fleiri áhorfendur. Við vitum að við myndum fylla ennþá stærri hallir.“

Góð tilfinning sem má ekki vera of góð

Ísland tek­ur á móti Eistlandi í loka­leik 3. riðils und­an­keppni Evr­ópu­móts­ins í Laug­ar­dals­höll í dag. Íslenska liðið er með ör­lög­in í sín­um hönd­um en sig­ur á morg­un trygg­ir efsta sætið í riðlin­um og þar með verður Ísland í 1. styrk­leika­flokki þegar dregið verður í riðla fyr­ir loka­keppn­ina sem fram fer í Þýskalandi í janú­ar.

Liðið tryggði sæti sitt á lokakeppni EM með góðum sigri á Ísrael ytra í vikunni en þrátt fyrir það er leikurinn í dag virkilega mikilvægur.

„Frábær sigur í Ísrael og komnir á EM sem er góð tilfinning en hún má ekki vera of góð því við erum að fara að spila mikilvægan leik á móti Eistlandi fyrir framan fulla stúku fyrir sigri í riðlinum,“ sagði Björgvin og bætti því við að leikurinn skipti líka miklu máli fyrir næsta mót en þar vísar hann til Ólympíuleikanna í París sumarið 2024.

„Það er að öllu að keppa fyrir okkur og þó þetta væri æfingaleikur þá erum við að spila frammi fyrir fullri höll og ég held að það sé eitthvað sem allir elska að gera. Ég held að það sé það skemmtilegasta sem þú gerir í handbolta og ég held að við höfum allir byrjað í handbolta út af þessum mómentum, það er að spila frammi fyrir fullri höll.“

„Með skemmtileg vopn“

Hvernig er að undirbúa sig fyrir svona mikilvægan leik gegn fyrirfram lakari andstæðingi?

„Það er aðeins öðruvísi en að undirbúa sig gegn bestu þjóðunum. Þá kemur fókusinn meira að sjálfu sér. Fyrir svona leiki þarf maður að vinna meira í því að ná upp einbeitingu sjálfur. Það er stuttur tími á milli leikja en við höfum bara tvo daga til að fókusera á klókan andstæðing,“ sagði Björgvin.

Hann sagði þá klóka sóknarlega og með skemmtileg vopn.

„Hægri skyttan Jaanimaa sem búinn er að vera frábær í flestum deildum Evrópu í lengri tíma og vinur minn Mait Patrail hefur eins verið í þýsku deildinni lengi lengi. Við þurfum að setja fókus á að stoppa þá sóknarlega.

Þeir eru kannski veikari varnarlega. Þeir eru með skemmtilegar skyttur og alvöru skotmenn sem við þurfum að finna svör við. Ég held að við höfum gert það á videofundinum í morgun og svo þurfum við bara að sýna það í leiknum sjálfum. Fyrst það er líka allt undir þá held ég að menn geti aldrei mætt værukærir til leiks.“

„Kominn sumarfílingur í fólkið heima“

Björgvin Páll sagði menn auðvitað þreytta og laskaða eftir langt ferðalag frá Ísrael en auðvitað staðráðna í að gera vel í leiknum og byggja á honum fyrir framhaldið.

„Við vitum alveg hvernig leikir þetta eru. Það er kominn sumarfílingur í fólkið hérna heima og það er svona smá 17. júní fílingur í þessu og allt það þannig að menn taka það með sér inn í leikinn og svo er frídagur daginn eftir. Þannig að að verður stemning innan vallar sem utan, ég get lofað þér því.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert