„Það er mjög auðvelt að gíra sig inn í þetta. Það eru allir sjúklega spenntir fyrir að spila í höllinni fyrir framan fulla stúku,“ sagði Óðinn Þór Ríkharðsson, landsliðsmaður í handbolta í samtali við mbl.is í Laugardalshöll í gær.
„Þetta er risa leikur sem skiptir miklu máli og við erum bara fáránlega gíraðir. Það er alltaf gaman að hitta strákana.“
Ísland tekur á móti Eistlandi í lokaleik 3. riðils undankeppni Evrópumótsins í Laugardalshöll í dag. Íslenska liðið er með örlögin í sínum höndum en sigur á morgun tryggir efsta sætið í riðlinum og þar með verður Ísland í 1. styrkleikaflokki þegar dregið verður í riðla fyrir lokakeppnina sem fram fer í Þýskalandi í janúar.
Óðinn sagði alltaf gaman að spila fyrir Ísland og sérstaklega á heimavelli. Óðinn Þór deilir hægra horninu með Sigvalda Birni Guðjónssyni og segir hann samkeppnina vera af hinu góða.
„Við erum bara saman í hægra horninu og hægra hornið er sterkt, það er bara jákvætt.“
Þurfum við að varast eitthvað ákveðið í leik Eista?
„Þeir eru góðir sjö á sex og það eru ákveðnir hlutir sem við þurfum að vera með á hreinu,“ segir Óðinn.
Hann segir alla sammála um að Ísland eigi að vera sterkara liðið en að það geti þó verið stórhættuleg staða.
Leikur Íslands og Eistlands hefst klukkan 16 í dag. Mbl.is verður í Laugardalshöll og flytur ykkur það helsta í beinni textalýsingu.