Tékkland vann þriggja marka heimasigur á Ísrael, 27:24, í lokaleik sínum í riðli Íslands í undankeppni Evrópumóts karla í handbolta en á sama tíma tryggði íslenska liðið sér efsta sætið í riðlinum með öruggum sjö marka heimasigri á Eistlandi, 30:23, í Laugardalshöll.
Ísland verður þar með í efsta styrkleikaflokki þegar dregið verður í riðla fyrir lokamótið í Þýskalandi en Tékkland í öðrum styrkleikaflokki.
Gestirnir frá Ísrael skoruðu fyrsta mark leiksins en það var í eina skiptið sem liðið var yfir í leiknum. Tékkar jöfnuðu, komust yfir og leiddu naumlega nær allan fyrri hálfleikinn. Hálfleikstölur 15:13.
Tékkar komust þremur mörkum yfir strax í upphafi seinni hálfleiks en Ísraelar gáfust ekki upp og jöfnuðu metin í stöðunni 17:17 þegar tæpar tuttugu mínútur lifðu leiks. Tékkar komust þá tveimur mörkum yfir en Ísraelar jöfnuðu aftur í stöðunni 22:22. Nær komust þeir ísraelsku ekki og Tékkar sigldu heim góðum þriggja marka sigri.
Matej Klima var markahæstur í liði Tékklands með sjö mörk og Stanislav Kasparek skoraði sex mörk. Í liði Ísraels var Ram Turkenitz markahæstur með sex mörk og þeir Lior Gurman og Yonatan Dayan skoruðu sín fimm mörkin hvor.
Tomas Mirkva varði sjö skot í marki Tékklands og gamla brýnið Martin Galia varði þrjú skot af þeim fimm sem hann fékk á sig og var þannig með 60% markvörslu. Galia er fæddur í apríl árið 1979 og er því nýorðinn 44 ára gamall.
Yahav Shamir varði fimm skot í marki Ísrael og Tom Shem Tov varði þrjú.