„Áhorfendurnir fengu pottþétt allt sem þeir vildu“

Elísabet Gunnarsdóttir í þann mund að skora eitt af fjórum …
Elísabet Gunnarsdóttir í þann mund að skora eitt af fjórum mörkum sínum í leiknum í dag. mbl.is/Óttar Geirsson

„Þetta var hörkuleikur þar sem áhorfendurnir fengu pottþétt allt sem þeir vildu. En ég hefði náttúrlega viljað fá úrslitin okkar megin,“ sagði Elísabet Gunnarsdóttir, línumaður Stjörnunnar, í samtali við mbl.is eftir 24:25-tap fyrir Val í undanúrslitum Íslandsmótsins í handbolta kvenna í dag.

„Það voru tæknifeilar í lokin sem fóru með þetta hjá okkur. Við hefðum getað jafnað eða komist yfir í hraðaupphlaupi þar sem við skjótum yfir.

Þetta eru svona smáatriði sem skipta miklu máli þegar við erum komin svona langt í þessari keppni. Liðið sem er með færri tæknifeila og fleiri varða bolta, ég held að það sé liðið sem klári þetta,“ bætti Elísabet við.

Staðan í einvíginu er nú jöfn, 1:1, en vinna þarf þrjá leiki til þess að tryggja sér sæti í úrslitaeinvíginu gegn ÍBV eða Haukum. Báðir leikir Stjörnunnar og Vals hafa verið hnífjafnir og æsispennandi. Er von á því að allir leikir einvígisins verði þetta spennandi?

„Já, heldur betur. Við eigum einhverja leikmenn inni, sem er geggjað fyrir okkur, og við töpum bara með einu marki. Við þurfum að horfa á það jákvæða.

Við þurfum að horfa á þennan leik, læra af honum og sjá hvað við getum gert betur, sem er heilmargt. Ég á ekki von á öðru en að það verði bara hörkuleikur eftir tvo daga, það er stutt í það,“ sagði hún.

Þriðji leikurinn fer fram á Hlíðarenda á miðvikudagskvöld, þar sem Elísabet reiknar með því að Stjörnukonur mæti áræðnar til leiks.

„Við gerum það. Þetta eru jöfn lið. Þetta eru skemmtilegir leikir, það er hart barist og þjálfararnir líflegir á hliðarlínunni. Ég held að þetta verði skemmtilegur leikur og ég hlakka til,“ sagði hún að lokum í samtali við mbl.is.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert