„Ég er bara í smá spennufalli eins og er. Þetta var aðeins meira spennandi en við vildum,“ sagði Mariam Eradze, leikmaður Vals, í samtali við mbl.is eftir 25:24-sigur á Stjörnunni í æsispennandi öðrum leik liðanna í undanúrslitum Íslandsmótsins í handknattleik í dag.
Valur var komið í ákjósanlega stöðu, 24:21, seint í leiknum en Stjarnan jafnaði metin í 24:24. Valur missti boltann í sífellu síðustu mínúturnar en náði þó að knýja fram sigurmark.
„Ég efast um að þetta hafi verið stress eða eitthvað svoleiðis því við erum með mikið af reynslumiklum leikmönnum sem hafa spilað lengi. Ég tel markmann þeirra hafa gert vel, hún lokaði á réttum tímum og þær byrjuðu að spila hörkuvörn í enda leiksins.
Þetta var bara byrjað að vera erfiðara og við lögðum rosalega mikla orku í vörnina okkar, þannig að sóknin var byrjuð að hökta aðeins í smá stund. En við sigldum þessu heim og það er það sem skiptir máli,“ hélt Mariam áfram.
Staðan í einvíginu er 1:1, en vinna þarf þrjá leiki til þess að komast í úrslit gegn ÍBV eða Haukum. Báðir leikir Vals og Stjörnunnar hafa verið æsispennandi. Er von á því að allir leikir einvígisins verði það?
„Ég veit það ekki alveg. Þetta er fegurðin í umspilinu held ég bara. Hvaða lið getur unnið hvaða lið sem er.
Þetta er öðruvísi keppni en deildin, það er ekki endilega hægt að dæma lið út frá því hvernig gekk í deildinni samanborið við núna því allir eru að bíða allt árið eftir þessari keppni.
Þetta er langskemmtilegasti hlutinn af tímabilinu. Ætli þetta verði ekki bara gaman fyrir alla að horfa á? Allir ættu að fylgjast með einvíginu,“ útskýrði hún.
Sigurinn var einstaklega mikilvægur þar sem Valur forðaðist að lenda 0:2 undir í einvíginu.
„Þetta var mjög mikilvægt. Eins og í fyrsta leiknum, þá fann maður virkilega fyrir því að við höfðum ekki spilað í langan tíma. Við sátum náttúrlega hjá í fyrstu umferðinni. Þær komu mjög sterkar inn í þann leik og voru búnar að vera að spila.
Það segir sig sjálft að við vorum mjög miklir klaufar í síðasta leik. Við vorum það alveg líka í dag en kannski aðeins minna. En það er bara áfram með smjörið!“ sagði Mariam að lokum í samtali við mbl.is.