Fjölnir vann frækinn sigur á Víkingi úr Reykjavík, 25:24, þegar liðin áttust við í þriðja leik liðanna í úrslitaeinvígi umspils um laust sæti í úrvalsdeild karla í handknattleik í Safamýri í dag.
Fjölnir minnkaði þar með muninn í einvíginu 2:1, en vinna þarf þrjá leiki til þess að komast upp í úrvalsdeildina.
Gestirnir úr Grafarvogi hófu leikinn af krafti og voru komnir með 7:4 forystu eftir um tíu mínútna leik.
Víkingur tók þá vel við sér og jafnaði metin í 8:8. Mikið jafnræði var með liðunum það sem eftir lifði fyrri hálfleiks og var staðan enn jöfn, 13:13, þegar flautað var til hálfleiks.
Fjölnir hóf síðari hálfleikinn með prýði og náði snemma tveggja marka forystu, 17:15.
Víkingur svaraði hins vegar með fimm mörkum í röð og leiddi þannig með þremur mörkum, 20:17.
Sveiflunum í leiknum var ekki lokið þar sem Fjölnir brást við með því að skora þrjú mörk í röð og jafna metin í 20:20.
Áfram gekk leikurinn svona. Víkingur komst í 24:21 en Fjölnir jafnaði í 24:24.
Það var svo Aron Breki Oddnýjarson sem skoraði sigurmark Fjölnis um mínútu fyrir leikslok.
Bæði lið reyndu hvað þau gátu að bæta við mörkum en Fjölnir klúðraði dauðafæri auk þess sem Jóhann Reynir Gunnlaugsson reyndi skot beint úr aukakasti á lokasekúndunni.
Allt kom fyrir ekki og niðurstaðan eins marks sigur Fjölnis, sem heldur sér þar með á lífi í einvíginu.
Markahæstur í liði Fjölnis var Þorleifur Rafn Aðalsteinsson með sjö mörk. Andri Hansen varði níu skot í marki liðsins.
Hjá Víkingi var Gunnar Valdimar Johnsen með sjö mörk. Skammt undan var Jóhann Reynir með sex mörk.
Hlynur Freyr Ómarsson varði átta skot í marki Víkings og Sverrir Andrésson varði sex.
Liðin mætast í fjórða leik í Grafarvogi næstkomandi fimmtudagskvöld.