Haukar jöfnuðu metin eftir framlengingu

Harpa Valey Gylfadóttir sækir að marki Hauka í dag. Natasha …
Harpa Valey Gylfadóttir sækir að marki Hauka í dag. Natasha Hammer er fyrir aftan hana. mbl.is/Óttar Geirsson

Haukakonur eru búnar að jafna metin í undanúrslitum þeirra og ÍBV á Íslandsmótinu í handbolta eftir eins marks sigur, 25:24, á Ásvöllum í dag. Staðan er 1:1 í einvíginu.

ÍBV, sem er deildar- og bikarmeistari, vann fyrri leik liðanna í Eyjum, 29:22, en þrjá sigra þarf til þess að komast í úrslitaeinvígið þar sem annaðhvort Valur eða Stjarnan bíður. 

Haukakonur voru mun sterkari aðilinn í fyrri hálfleik og héldu forystu nánast allan tímann. Haukaliðið var grimmara og beittara og þegar leið á hálfleikinn juku Haukar forskot sitt jafnt og þétt. Haukakonur voru sex mörkum yfir í hálfleik, 14:8. 

Margrét Einarsdóttir fór mikinn í marki Hauka í fyrri hálfleik og varði níu skot, Elín Klara Þorkelsdóttir hélt uppteknum hætti áfram og skoraði sjö mörk, en Haukaliðinu tókst vel að loka á Hrafnhildi Hönnu Þrastardóttur, besta leikmann ÍBV. 

Allt önnur lið mættu til seinni hálfleiks. Þar voru Eyjakonur mun beittari og vörðust af krafti. Haukar klikkuðu á lykilskotum og Marta Wawrzynkowska varði vel í marki Eyjakvenna sem gerði það að verkum að ÍBV náði forystunni á 48. mínútu, 18:17. 

Þá tók hinsvegar við kafli þar sem Haukaliðið var sterkara og kom sér aftur yfir þegar fimm mínútur voru eftir, 21:20. Háspenna var á lokasekúndum leiksins, er allt var jafnt, 21:21, en þá skoraði Birna Berg Haraldsdóttir þegar fimmtán sekúndur voru eftir fyrir ÍBV en Sonja Lind Sigsteinsdóttir svaraði með marki þegar fimm sekúndur voru eftir, tíminn rann út og um framlengingu að ræða. 

Í framlengingunni voru Haukakonur sterkari aðilinn, yfir með tveimur í hálfleik, og kláruðu svo leikinn með eins marka sigri, 25:24. 

Elín Klara var markahæst í leiknum með 12 stykki fyrir Hauka, helming þeirra af vítapunktinum. Birna Berg var markahæst fyrir ÍBV með níu. Báðir markmenn áttu stórgóða leiki en Marta varði 18 skot fyrir ÍBV og Margrét 16 fyrir Hauka. 

Haukar jafna því einvígið í 1:1, en eins og áður kom fram þarf þrjá sigra til að komast í úrslit. Í úrslitaeinvíginu bíður Valur eða Stjarnan. 

Haukar 25:24 ÍBV opna loka
70. mín. Elín Klara Þorkelsdóttir (Haukar) skýtur framhjá 40 sekúndur eftir og ÍBV getur jafnað á nýjan leik.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert